[go: nahoru, domu]

Fara í innihald

Alberto Fernández

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alberto Fernández
Fernández árið 2021.
Forseti Argentínu
Í embætti
10. desember 2019 – 10. desember 2023
VaraforsetiCristina Fernández de Kirchner
ForveriMauricio Macri
EftirmaðurJavier Milei
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. apríl 1959 (1959-04-02) (65 ára)
Búenos Aíres, Argentínu
StjórnmálaflokkurRéttlætisflokkurinn
MakiMarcela Luchetti (g. 1993; skilin 2005)
Börn1
HáskóliHáskólinn í Búenos Aíres
StarfLögfræðingur, stjórnmálamaður
Undirskrift

Alberto Ángel Fernández (f. 2. apríl 1959) er argentínskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forseti Argentínu. Hann sigraði sitjandi forsetann Mauricio Macri í forsetakosningum þann 28. október árið 2019 og tók við embætti forseta þann 10. desember sama ár.[1]

Fernández er perónisti úr argentínska Réttlætisflokknum. Hann hafði verið ígildi forsætisráðherra (sp. Jefe del Gabinete de Ministros) alla forsetatíð Néstors Kirchner og í byrjun forsetatíðar Cristinu Fernández de Kirchner.

Fernández fæddist í Búenos Aíres og gekk þar í lagadeild Háskólans í Búenos Aíres. Faðir hans var dómari af spænskum ættum. Fernández útskrifaðist þegar hann var 24 ára og varð síðar prófessor í refsirétti. Hann hóf feril í opinberri stjórnsýslu sem ráðgjafi við löggjafarráð Búenos Aíres og við neðri deild argentínska þingsins. Hann varð aðstoðarframkvæmdastjóri lagamálefna við argentínska fjármálaráðuneytið og var sem slíkur helsti samningamaður Argentínumanna við Úrúgvælotu GATT-samninganna. Carlos Menem forseti útnefndi Fernández í embætti þjóðartryggingastjóra og hann var forseti Samtaka rómansk-amerískra tryggingastjóra frá 1989 til 1992. Fernández tók jafnframt þátt í stofnun Alþjóðasamtaka tryggingastjóra. Hann vann síðar sem tryggingalögrágjafi við Mercosur and ALADI og við trygginga- og heilsugæslufélög í einkageiranum. Fernández var nefndur meðal tíu framúrskarandi argentínskra ungmenna árið 1992 og var sæmdur þúsaldarverðlaunum sem einn af argentínskum viðskiptamönnum aldarinnar.[2] Um þetta leyti varð hann náinn fyrrum fylkisstjóra Búenos Aíres-héraðs, Eduardo Duhalde.[3]

Fernández (til hægri) með Néstor Kirchner forseta og Jorge Taiana utanríkisráðherra árið 2007.

Þann 7. júní árið 2000 var Fernández kjörinn í löggjafarráð Búenos Aíres-borgar fyrir íhaldssama kosningabandalagið Acción por la República.

Formaður ráðherraráðsins (2003–2008)

[breyta | breyta frumkóða]

Fernández sagði upp sæti sínu í löggjafarráðinu árið 2003 þegar hinn nýkjörni Néstor Kirchner forseti útnefndi hann formann ráðherraráðsins (nokkurs konar ígildi forsætisráðherra) í ríkisstjórn sinni. Fernández gegndi embættinu til loka kjörtímabils Kirchners og hélt því eftir að eiginkona Kirchners, Cristina Fernández de Kirchner, var kjörin forseti árið 2007.[4][5]

Árið 2008 leiddi nýtt kerfi útflutningsskatta á landbúnaðarafurðir til harkalegra deilna milli ríkisstjórnarinnar og argentínsku bændastéttarinnar þar sem Fernández var helsti samningamaður ríkisstjórnarinnar. Samningaviðræður hans við bændurna fóru út um þúfur og eftir að Julio Cobos varaforseti greiddi óvænt atkvæði gegn skattafrumvarpinu á öldungadeild þingsins sagði Fernández af sér þann 23. júlí 2008.[6]

Fernández var útnefndur leiðtogi borgardeildar Réttlætisflokksins í Búenos Aíres árið 2009 en tók ekki virkan þátt í herferð flokksins með kosningabandalagi Sigurfylkingarinnar í þingkosningum sama ár.[7] Fernández íhugaði að sækjast eftir útnefningu flokksins í forvali fyrir forsetakosningar árið 2011[8] en ákvað að endingu að styðja Cristinu Kirchner til endurkjörs.[9] Árið 2015 var Fernández kosningastjóri í kosningaherferð forsetaframbjóðandans Sergio Massa.[10]

Forseti Argentínu

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 18. maí árið 2019 lýsti Cristina Fernández de Kirchner því yfir að Fernández myndi bjóða sig fram til forseta í kosningum sama ár og að hún yrði varaforsetaefni hans.[11][12] Um mánuði síðar gerði Fernández samning við Sergio Massa og myndaði með honum kosningabandalag undir nafninu „Allsherjarfylkingin“ (sp. Frente de Todos). Samkvæmt samningnum var Massa boðin staða í fyrirhugaðri ríkisstjórn Fernández eða á argentínska þinginu í skiptum fyrir að styðja forsetaframboð Fernández og bjóða sig ekki fram sjálfur. Samkomulag þeirra var liður í tilraun Fernández til að víkka stuðning við framboð sitt og höfða til miðjumanna sem óttuðust endurkomu hinnar vinstrisinnuðu Cristinu Kirchner að kjötkötlunum.[13] Fernández hlaut einnig stuðningsyfirlýsingu frá helstu verkalýðssamtökum Argentínu í skiptum fyrir loforð um að bæta efnahag landsins án þess að gera breytingar á verkalögum.[14]

Þann 11. ágúst 2019 lenti Fernández í fyrsta sæti í forkosningu fyrir forsetakosningarnar og hlaut 47,7% atkvæða, en sitjandi forsetinn Mauricio Macri aðeins 31,8%.[15] Eftir forkosninguna hélt Fernández blaðamannafund þar sem hann sagðist hafa hringt í Macri til að fullvissa hann um að hann myndi hjálpa honum að ljúka kjörtímabili sínu og „sefa samfélagið og markaðina“. Hann sagði jafnframt að fyrirhugaðar efnahagsstefnur hans myndu ekki auka hættu á greiðslufalli á ríkisskuldum Argentínu.[16]

Þann 27. október vann Fernández forsetakosningarnar með 48,1% atkvæða gegn 40,4 prósentum Macri. Þetta nægði til þess að vinna kosningarnar án þess að kallað yrði til annarrar kosningaumferðar.[17] Fernández var svarinn í embætti forseta Argentínu þann 10. desember 2019.

Á stjórnartíð sinni reyndi Fernández að bregðast við skuldavanda Argentínu og kórónuveirufaraldrinum með því að prenta peninga en þetta jók bara á vandræðin. Árið 2022 samdi stjórn Fernández við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um frestun á greiðslu láni frá sjóðnum. Argentína varð í staðinn að ganga að tilteknum skilyrðum eins og að draga úr ríkisútgjöldum.[18]

Verðbólga og lífskjarakreppa í Argentínu drógu mjög úr vinsældum Fernández og leiddu til mótmæla gegn stjórn hans. Árið 2023 sögðust aðeins tíu prósent landsmanna ánægð með frammistöðu hans. Fernández gaf ekki kost á sér til endurkjörs í forsetakosningum Argentínu árið 2023.[18]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Róbert Jóhannsson (28. október 2019). „Fernandez nýr forseti Argentínu“. RÚV. Sótt 10. desember 2019.
  2. „Clase Magistral“. Universidad Nacional de San Luis. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. október 2013.
  3. „El Pasado Menemista de un gobierno que acusa a la oposición de menemista“. Perfil. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. apríl 2008.
  4. „Alberto Fernández habría vuelto con su esposa“. Agencia Nova. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 23. júní 2013.
  5. „Alberto Fernández y Vilma Ibarra más juntos que nunca“. Perfil. 26. ágúst 2019. Afrit af upprunalegu geymt þann 27 maí 2016. Sótt 11 desember 2019.
  6. „Miguens afirmó que Fernández fracasó en la negociación con el campo“. Los Andes.[óvirkur tengill][óvirkur tengill]
  7. „Kirchner cargó contra Cobos y De Narváez en un acto porteño“. Clarín. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. mars 2016. Sótt 11. desember 2019.
  8. „Alberto Fernández reiteró que no descarta ser candidato a presidente en 2011“. La Nación. 24. mars 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 9 desember 2014. Sótt 11 desember 2019.
  9. „Alberto Fernández se declara oficialista y ya se anota como candidato para 2015“. La Nación. 30. ágúst 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 9 desember 2014. Sótt 11 desember 2019.
  10. „Alberto Fernández: "Es indudable el deterioro en el voto de Sergio Massa". Minuto Uno.
  11. „Alberto Fernández presidente, Cristina Kirchner vice: el video en el que la senadora anuncia la fórmula“. La Nación. 18. maí 2019.
  12. „Alberto Fernández, en su primer acto de campaña: "Salgamos a convocar a todos" (spænska). La Nacion. 20. maí 2019. Sótt 26. nóvember 2019.
  13. „Argentina's Massa in line for key Congress role on Fernandez presidential ticket“. Reuters. 18. júní 2019. Sótt 26. nóvember 2019.
  14. Bullrich, Lucrecia (17. júlí 2019). „Alberto Fernández recibió el respaldo de la CGT y dijo que no hará reformas“ (spænska). La Naction. Sótt 26. nóvember 2019.
  15. „Hrun á mörkuðum í Argentínu“. Viðskiptablaðið. 12. ágúst 2019. Sótt 11. desember 2019.
  16. „Alberto Fernández: "El Presidente tiene que llegar al 10 de diciembre" (spænska). La Nacion. 14. ágúst 2019. Sótt 26. nóvember 2019.
  17. Goñi, Uki (28. október 2019). „Argentina election: Macri out as Cristina Fernández de Kirchner returns to office as VP“. The Guardian. Sótt 26. nóvember 2019.
  18. 18,0 18,1 Bjarni Pétur Jónsson (15. maí 2023). „Hárkollan sem ætlar í niðurskurð með keðjusög að vopni“. RÚV. Sótt 21. nóvember 2023.


Fyrirrennari:
Mauricio Macri
Forseti Argentínu
(10. desember 201910. desember 2023)
Eftirmaður:
Javier Milei