Einar Benediktsson
Einar Benediktsson (oft nefndur Einar Ben) (31. október 1864 – 12. janúar 1940)[1][2] var skáld, ritstjóri, lögfræðingur, embættis- og mikill athafnamaður. Einar er talinn í hópi nýrómantískra skálda og samdi mikil ljóð með hátimbruðu yfirbragði. Orðin: „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ eru úr ljóði hans Einræður Starkaðar, III.
Ævi og ferill
Faðir Einars var Benedikt Sveinsson, alþingismaður og sýslumaður og móðir hans hét Katrín Einarsdóttir, húsmóðir. Einar gekk í Lærða Skólann í Reykjavík þaðan sem hann varð stúdent 1884. Hann fór því næst til Kaupmannahafnar og útskrifaðist sem lögfræðingur úr Hafnarháskóla 1892.
Einar stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, sem studdi Heimastjórnarflokkinn, og var sjálfur ritstjóri þess í tvö ár. Hann átti þátt í stofnun Landvarnarflokksins árið 1902 og gaf út blaðið Landvörn samhliða því. Einar átti þátt í því að koma á laggirnar fyrstu loftskeytastöð landsins árið 1906. Hann kom einnig að útgáfu blaðanna Þjóðin (1914–15), Þjóðstefna (1916–17) og Höfuðstaðurinn (1916–17).
Einar var mikill áhugamaður um virkjun fallvatna og stofnaði ásamt öðrum Fossafélagið Títan 1914 til athugunar á því hvort arðbært væri að byggja virkjanir við Þjórsá. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum fyrr en um hálfri öld seinna þegar Búrfellsvirkjun var byggð.
Á árunum 1907–21 ferðaðist Einar mikið. Hann fór til Noregs, Edinborgar í Skotlandi, sneri aftur til Kaupmannahafnar (1908-10) en eyddi svo sjö árum í London (1910–17) áður en hann fór enn aftur til Kaupmannahafnar (1917–21), þess í milli hafði hann stuttar viðkomur á Íslandi.
Hann sneri endanlega aftur heim til Íslands 1921 og bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, meðal annars í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Þá lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, til þess að skoða möguleikana á málmvinnslu og sementsframleiðslu. Síðustu átta árum ævi sinnar eyddi Einar í Herdísarvík á Reykjanesskaga, þar sem hann lést 1940. Einar var grafinn í þjóðargrafreit á Þingvöllum.
Eitt og annað
- Stytta af Einari eftir Ásmund Sveinsson stendur við Höfða í Reykjavík, en Einar bjó í húsinu um árabil.
- Veitingastaðurinn Einar Ben við Ingólfstorg er nefndur eftir Einari.
- Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, gaf út ævisögu Einars í þremur bindum á árunum 1997–2000.
Helstu verk
- Sögur og kvæði (1897)
- Pétur Gautur (1901) (Þýðing á leikriti Henrik Ibsen)
- Hafblik (1906) (Kvæði)
- Hrannir (1913) (Kvæði)
- Vogar (1921) (Kvæði)
- Hvammar (1930) (Kvæði)
Heimildir
Tenglar
- Einar Benediktsson; greinar í Lesbók Morgunblaðsins 1964
- Hjá Einari Benediktssyni í Herdísarvík; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1971
- Kvæðin hans eru engum torskilin, sem hlusta vilja á hann; viðtal við Valgerði Benediktsson; birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1941
- Um Katrínu Einarsdóttur – móður Einars skálds Benediktssonar; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1938
- Davíð konungur; birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1929
- Hvammar; birtist í Lögbergi 1928 Grein í Morgunblaðinu 5. nóvember 2006: " Um afann Einar " eftir Einar Benediktsson fv. sendiherra
- ↑ „Einar Benediktsson“. Vísir. 27. janúar 1940.
- ↑ „Einar skáld Benediktsson lézt s.l. föstudagskvöld“. Alþýðublaðið. 15. janúar 1940.