[go: nahoru, domu]

Fara í innihald

Sigurður Ólafsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sigurður Ólafsson
Sigurður Ólafsson söngvari
Sigurður Ólafsson söngvari
Upplýsingar
FæddurSigurður Ólafsson
1916
Dáinn1993
StörfSöngvari
HljóðfæriRödd
Bóndinn í Laugarnesi
Hestamaðurinn

Sigurður Ólafsson (fæddur 4. desember 1916 að Laugavegi 49 í Reykjavík, látinn 15. júlí 1993) var íslenskur söngvari og hestamaður.

Foreldrar Sigurðar voru Þuríður Jónsdóttir húsmóðir (6. janúar 1873 – 20. janúar 1941) og Ólafur Jónatansson verkamaður (8. maí 1880 – 2. desember 1963). Bræður Sigurðar voru Erling Ólafsson (21. ágúst 1910 – 23. desember 1934), baríntónsöngvari á fyrri hluta 20. aldar og Jónatan Ólafsson (17. febrúar 1914 – 11. apríl 1997), sem var píanóleikari og tónskáld.

Faðir hans átti forláta orgel og harmoniku. Sigurður lærði snemma að lesa nótur og taka þátt í söngnum með bræðrum sínum þótt hann langaði ekkert sérstaklega til þess, hvað þá að leggja það fyrir sig, en það átti eftir að breytast.

Sem hirðmaðurinn Sebranó í Rígólettó. Með honum á myndinni er Elín Ingvarsdóttir
Sigurður sem fiðlarinn í Gullna hliðinu. Með honum á myndinni er stúlknahópur í hlutverkum engla
Sigurður lék Frank fangelsisstjóra í Leðurblökunni. Með honum á myndinni er Bjarni Bjarnason

Söngvarinn

[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður sótti ungur söngtíma hjá Sigurði Birkis og Guðmundi Jónssyni. Hann söng með Karlakór Reykjavíkur frá tuttugu og þriggja ára aldri og síðan með eldri félögum kórsins. Sjálfur hefur hann þó ítrekað sagt að söngurinn hafi verið honum eins og hvert annað lifibrauð og því hafi hann ekki haft efni á að hafna þeim tilboðum sem buðust hverju sinni.

Bláa kápan

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta sviðsverkið, sem Sigurður Ólafsson tók þátt í, var „Bláa kápan" eftir Bruno Hardt-Warden og Hermann Feiner við lög og ljóð eftir Walter Kollo og Willi Kollo. Óperettan var sýnd í Iðnó og var frumsýning hennar í byrjun desember árið 1949. Aðalhlutverkin voru hins vegar í höndum þeirra Bjarna Bjarnasonar, sem lék bankamanninn Hendrik Walter, Haraldar Björnssonar, sem lék Detlef fríherra og gósseiganda, og Svanhvítar Egilsdóttur sem lék Beate Marie, dóttur hans.

Ef marka má leikdóma í dagblöðum eftir frumsýningu hefur „Bláu kápunni" verið vel tekið. Morgunblaðið hrósaði frammistöðu hans.[1][2]

Rígólettó

[breyta | breyta frumkóða]

Sunnudagurinn 3. júní 1951 var óperan „Rigoletto" frumsýnd í Þjóðleikhúsinu. Leikstjórinn var Simon Edwardsen frá Óperunni í Stokkhólmi. Gagnrýnanda fannst frammistaða Stefáns í lagi.[3]

Gullna hliðið

[breyta | breyta frumkóða]

Hið sígilda leikrit „Gullna hliðið" eftir Davíð Stefánsson við tónlist Dr. Páls Ísólfssonar var tvisvar sinnum fært upp í Þjóðleikhúsinu á þessum árum; fyrst árið 1951 og síðan aftur árið 1954. Í bæði skiptin lék Sigurður hið kunna hlutverk fiðlungsins. Lárus Pálsson var leikstjóri og lék einnig hlutverk djöfulsins.[4]

Á árunum 1950-1952 lék Sigurður hlutverk „Polichinells" í „Ímyndunarveikinni" og hlutverk þræls í „Tyrkja-Guddu". Þá lék hann hlutverk „Amiens" í „Sem yður þóknast" eftir Shakespeare.

Leðurblakan

[breyta | breyta frumkóða]

Óperettan „Leðurblakan,“ eftir austurríska valsakónginn Johann Strauss, var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu á þjóðhátíðardaginn þann 17. júní árið 1952. Leikstjóri sýningarinnar var Simon Edwardsen en Dr. Urbancic stjórnaði tónlistarflutningi. Báðir höfðu þeir unnið við uppsetninguna á „Rígólettó" árið áður og voru því öllum hnútum kunnugir. Og víst voru stórstjörnur í helstu aðalhlutverkum; Guðrún Á. Símonar, sem lék Rósalindu, og Einar Kristjánsson sem lék Von Eisenstein.

Leiklistagagnrýni Morgunblaðsins hrósaði aðalleikurum óperunnar en fannst leikur og söngur Sigurðar vera verulega lélegur.[5]

Hljómplötur og kabarettar

[breyta | breyta frumkóða]

Sjötti áratugurinn var áratugur kabaretta og revíusýninga auk þess sem íslensk hljómplötuútgáfa var í miklum blóma. Sigurður Ólafsson átti sinn þátt í þessu ævintýri því á þessum árum söng hann með íslenskum danshljómsveitum, m.a. í Þórskaffi, Gúttó, og Breiðfirðingabúð, lék og söng í kabarettsýningum í Sjálfstæðishúsinu og á vegum Íslenzkra tóna í Austurbæjarbíói. Setti upp skemmtidagskrá ásamt félögum sínum, sem þeir fóru með um landið þvert og endilangt, tók þátt í danslagakeppnum og söng inn á fjölmargar hljómplötur.

Fyrsta hljóðritunin

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta hljóðritunin með söng Sigurðar mun vera lagið Silfrað hár sem hann söng inn á lakkplötu ásamt karlakórnum Stefni hjá Útvarpinu árið 1941. Þetta lag var síðar gefið út á safndiskinum „Þín minning lifir“ sem Sena gaf út 2003.

Hljómplötufyrirtækið Íslenzkir tónar sem Tage Ammendrup rak gaf út flestar hljómplöturnar með söng Sigurðar Ólafssonar. Fyrsta hljómplata Sigurðar var hljóðrituð í upptökusal Ríkisútvarpsins í gamla Landsímahúsinu við Austurvöll árið 1952 við undirleik hljómsveitar Bjarna Böðvarssonar. Á henni eru lögin Litli vin, sem er erlent lag en Freysteinn Gunnarsson gerði textann, og Hvar varstu í nótt?, erlent lag sem Jón Sigurðsson gerði texta við.

Sjómannavalsinn

[breyta | breyta frumkóða]

Ári síðar gáfu Íslenzkir tónar síðan út plötu, sem geymir eitt allra vinsælasta lag Sigurðar fyrr og síðar, Sjómannavalsinn, eftir Svavar Benediktsson við texta Kristjáns frá Djúpalæk en þetta lag náði fyrsta sætinu í danslagakeppni SKT.

Það er svo margt

[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður söng einnig fyrstur söngvara hið rómaða lag; Það er svo margt að minnast á eftir Inga T. Lárusson við texta Einars Sæmundsen. Á sömu hljómplötu er einnig að finna lag Sigvalda Kaldalóns, Fjallið eina við ljóð Grétars Ó. Fells. Bæði þessi lög náðu ótrúlegum vinsældum og eru enn spiluð í Ríkisútvarpinu. Sjálfur segist Sigurður vera nokkuð sáttur við frammistöðu sína í laginu „Það er svo margt" og segir það vera eitt af sínum uppáhaldslögum.[6]

Blikandi haf

[breyta | breyta frumkóða]

Næstu árin komu út fleiri plötur Íslenzkra tóna með söng Sigurðar en alls urðu lögin, sem hann söng inn á hljómplötur fyrir íslenska tóna, tuttugu og fimm að tölu. Þar á meðal má nefna Blikandi haf eftir Tólfta september (Freymóð Jóhannsson) en í því lagi sungu þau Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested saman. Þess má geta að þetta lag vann til fyrstu verðlauna í danslagakeppni SKT, sem haldin var árlega í Góðtemplarahúsinu á þessum árum.

Síldarvalsinn

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1956 söng Sigurður Ólafsson inn á hljómplötu, með Tríói J. Morávek, það lag sem átti eftir að bera hróður hans lengi og víða. Þetta var Síldarvalsinn eftir Steingrím Sigfússon frá Patreksfirði. Á sömu plötu syngja þau Soffía Karlsdóttir einnig Ég bíð þér upp í dans eftir Þórhall Stefánsson og Guðnýju Ricter við texta Örnólfs úr Vík.

Árið 1960 sungu þau Sigurður og Hulda Emilsdóttir saman tvö lög við texta eftir Tólfta september inn á hljómplötu sem gefin var út af Tónabandinu, útgáfu Freymóðs Jóhannssonar. Þar er að finna hið kunna lag Halló en á bakhlið plötunnar er lag sem heitir Bergmál hins liðna.

Við eigum samleið

[breyta | breyta frumkóða]

Síðasta platan, sem Íslenzkir tónar gáfu út með söng Sigurðar, kom út árið 1955. Þar nýtur Sigurður aðstoðar ekki ómerkari söngkonu en Maríu Markan og syngja þau m.a. saman á þeirri plötu lag Sigfúsar Halldórssonar Við eigum samleið við texta Tómasar Guðmundssonar. María Markan var þá nýkomin heim eftir mikla velgengni sem óperusöngkona á erlendri grund og söng þarna í fyrsta sinn, og líklega það eina, dægurlag inn á hljómplötu.

Feðgin syngja saman

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1971 kom út næsta plata Sigurðar. Platan innihélt aðalega gömul lög, en meðal nýrra laga var Rökkvar í runnum, Nóttin og þú, Árin líða, Kveðja förumannsins og Í Reykjavík. Þuríður dóttir hans söng með honum.[7]

Hestamaðurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður segir sig hafa tekið þátt í öllum landsmótum. Hann átti hestinn Glettu sem hefur sett Íslandsmet.[8] Gletta á soninn Hroll, sem einnig keppti á landsmótum.[9]

Fjölskyldan

[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður kvæntist 3. desember 1938 Ingu Valfríði Einarsdóttur, f. 10. nóvember 1918, sjúkraliða sem kölluð er Snúlla. Þau hjónin reistu sér myndarbú í Laugarnesi þar sem þau bjuggu næstu 30 árin ásamt hvítu fákunum og börnunum sex, þeim Valgerði, f. 1937, meinatækni; Erling, f. 1942, tamningamanni og reiðkennara; Ævari, f. 1944, bílamálara; Þuríði, f. 1949, söngkonu og málara; Ólafi, f. 1950, trésmið og Gunnþóri, leikmunaverði og pönkara f. 1960. Dóttir Sigurðar frá því fyrir hjónaband er Elsa, húsmóðir í Reykjavík.


Útgefið efni

[breyta | breyta frumkóða]

Íslenzkir tónar

[breyta | breyta frumkóða]

Útgáfuröðin IM 1-120

[breyta | breyta frumkóða]

78-snúninga plötur.

  • IM 13 - Sigurður Ólafsson - Litli vin - Hvar varstu í nótt - 1953
  • IM 14 - Sigurður Ólafsson - Meira fjör - Komdu þjónn… - 1953
  • IM 20 - Sigurður Ólafsson - Sjómannavals - Stjörnunótt - 1953
  • IM 30 - Sigurður Ólafsson - Kvöldkyrrð - Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested - Blikandi haf - 1953
  • IM 45 - Sigurður Ólafsson - Á Sprengisandi - Kveldriður - Svanurinn minn syngur - 1954
  • IM 46 - Sigurður Ólafsson - Það er svo margt - Fjallið eina - 1954
  • IM 56 - Sigurður Ólafsson - Síldarvalsinn - Sigurður Ólafsson og Soffía Karlsdóttir - Ég bíð þér upp í dans - 1954
  • IM 85 - María Markan og Sigurður Ólafsson - Við eigum samleið // María Markan - Þitt augnadjúp - 1955
  • IM 88 - Sigurður Ólafsson - Ástarvísa hestamannsins - Tígulkvartettinn - Sveinki káti - 1955
  • IM 89 - Sigurður Ólafsson - Við komum allir, allir… - Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested - Á Hveravöllum - 1955
  • IM 111 - Sigurður Ólafsson - Sjómannavalsinn - Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested - Blikandi haf - 1956

Útgáfuröðin EXP-IM 1-122

[breyta | breyta frumkóða]

45-snúninga plötur.

  • EXP-IM 2 - Sigurður Ólafsson - Litli vin - Kvöldkyrrð - Ingibjörg Þorbergs og Alfreð Clausen - Á morgun - Sigurveig Hjaltested og Alfreð Clausen - Blikandi haf - 1954
  • EXP-IM 9 - Sigurður Ólafsson - Á Sprengisandi - Kveldriður - Svanurinn minn syngur - Fjallið eina - Það er svo margt - 1954
  • EXP-IM 15 - Alfreð Clausen - Ég minnist þín - Góða nótt - Sigurður Ólafsson - Og jörðin snýst úr Nitouche - Alfreð Clausen og Sigurður Ólafsson - Drykkjuvísa úr Bláu kápunni - 1956
  • EXP-IM 35 - Sigurður Ólafsson - Sjómannavalsinn - Síldarvalsinn -Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested - Á Hveravöllum - 1958
  • EXP-IM 62 - Tígulkvartettinn - Ég bið að heilsa - Sólsetursljóðin - Sigurður Ólafsson - Smaladrengurinn - Smalastúlkan - Karlakórinn Vísir, Siglufirði - Ég vil elska mitt land - 1959
  • EXP-IM 72 - Óðinn Valdimarsson - Útlaginn - Ingibjörg Þorbergs - Kvölds í ljúfum blæ - Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested - Blikandi haf - Sigfús Halldórsson -Tondeleyo - 1960

Útgáfuröðin LP-IT

[breyta | breyta frumkóða]

33-snúninga plötur.

  • LPIT 1000/1 - Söngvar frá Íslandi nr. 1 - 2 plötur (Dægurlög) - 27 lög með ýmsum flytjendum.
  • LPIT 1002/3 - Söngvar frá Íslandi nr. 2 - 2 plötur. (Sönglög) - 26 lög með ýmsum flytjendum.

Tónabandið

[breyta | breyta frumkóða]

45-snúninga

  • TON 101 - Halló -Bergmál hins liðna

SG hljómplötur

[breyta | breyta frumkóða]

LP

Útgáfuröðin „SG 001-175“

[breyta | breyta frumkóða]
  • SG 042 - Sigurður og Þuríður - Feðgin syngja saman (1971)

Útgáfuröðin „Íslenskir tónar“

[breyta | breyta frumkóða]
  • IT - 004 - 005 - Sigurður Ólafsson - Safnplötur með 30 lögum frá 1952 - 1957 - 25 laganna hafa komið út á plötum Íslenzkra tóna - 5 eru áður óútgefin. SG hljómplötur gaf út 1978.
  • Þín minning lifir- Íslenskir tónar/Sena - 2003
  • Útvarpsperlur - RUV - 2002 - Upptökur úr safni útvarpsins og og einkasafni Jónatans Ólafssonar
  • Óútgefið efni í eigu RUV - Lög eftir Vestur Íslendinginn Ólaf Hallsson, 1950 (fundust á lakkplötum fyrir nokkrum árum og voru hljóðhreinsuð hjá RUV)

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Morgunblaðið, 5. desember
  2. Í söngvarans jóreyk, bls. 170 - Ragnheiður Davíðsdóttir skráði:
  3. Í söngvarans jóreyk,bls. 173 - 174 - Ragnheiður Davíðsdóttir skráði:
  4. Í söngvarans jóreyk,bls. 176 - 177 - Ragnheiður Davíðsdóttir skráði:
  5. Þjóðleikhúsið: Óperettan Leðurblakan. Morgunblaðið. 20. júní 1952.
  6. Í söngvarans jóreyk,bls. 181 - Ragnheiður Davíðsdóttir skráði:
  7. Í söngvarans jóreyk,bls. 188 - 189 - Ragnheiður Davíðsdóttir skráði:
  8. Gletta setti nýtt Íslandsmet. Morgunblaðið. 19. maí 1948.
  9. Hefur tekið þátt í öllum landsmótum frá upphafi. Vísir 4. júlí 1976, bls. 4