[go: nahoru, domu]

Fara í innihald

Spaugstofan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Spaugstofan
Atriði úr Spaugstofunni árið 1991
TegundSketsaþáttur
Leikarar
UpprunalandÍsland
Fjöldi þátta472
Framleiðsla
Lengd þáttarum 20 mínútur
Útsending
Upprunaleg sjónvarpsstöð
Sýnt1989 – 2016
Tenglar
IMDb tengill

Spaugstofan var íslenskur grín-sjónvarpsþáttur sem var sýndur á RÚV frá 1989 til 2010 og á Stöð 2 frá 2010 til 2014. Lokaþáttur var 2016 og urðu þættirnir 473 talsins.[1] Þessir þættir gerðust á mestu leiti í fréttastofu lítillar sjónvarpsstöðvar sem hét Stöðin. Þátturinn var á dagskrá á laugardagskvöldum og gekk yfirleitt út á að sýna atburði liðinnar viku í spaugilegu ljósi. Spaugstofuna skipuðu þeir Karl Ágúst Úlfsson, Pálmi Gestsson, Sigurður Sigurjónsson, Örn Árnason og Randver Þorláksson.

Yfirlit[breyta | breyta frumkóða]

Þáttaröð Þáttafjöldi Fyrsti útsendingardagur Síðasti útsendingardagur Sjónvarpsstöð
0 4 9. febrúar 1987 2. mars 1987 RÚV
1 16 21. janúar 1989 29. apríl 1989 RÚV
2 23 28. október 1989 14. apríl 1990 RÚV
3 19 12. janúar 1991 18. maí 1991 RÚV
4 21 11. janúar 1992 30. maí 1992 RÚV
5 20 13. janúar 1996 25. maí 1996 RÚV
6 16 11. janúar 1997 26. apríl 1997 RÚV
7 10 11. október 1997 13. desember 1997 RÚV
8 16 10. janúar 1998 25. apríl 1998 RÚV
9 27 10. október 1998 1. maí 1999 RÚV
10 25 12. október 2002 26. apríl 2003 RÚV
11 26 11. október 2003 1. maí 2004 RÚV
12 26 9. október 2004 30. apríl 2005 RÚV
13 28 17. september 2005 22. apríl 2006 RÚV
14 27 16. september 2006 28. apríl 2007 RÚV
15 29 15. september 2007 26. apríl 2008 RÚV
16 24 27. september 2008 28. mars 2009 RÚV
17 26 26. september 2009 17. apríl 2010 RÚV
18 22 9. október 2010 26. mars 2011 Stöð 2
19 22 24. september 2011 7. apríl 2012 Stöð 2
20 22 22. september 2012 20. apríl 2013 Stöð 2
21 22 28. september 2013 29. mars 2014 Stöð 2
22 1 23. janúar 2016 RÚV

Áramótaskaup (1984-1986)[breyta | breyta frumkóða]

Karl Ágúst, Örn og Pálmi kynnast í leiklistanámi og verða þar góðir vinir. Það er svo árið 1984 sem þeir þrír ásamt Karli Ágústi og Sigurði leika saman í Þjóðleikhúsinu í sýningu sem hét Skuggasveinn. Það má því segja að sú sýning hafi markað ákveðið upphaf að vinskap þeirra fimm.

En mun fleiri tala um Áramótaskaupið 1985 sem upphaf að Spaugstofunni, þó það séu reyndar ekki allir sammála um það.[2] Það var Hrafn Gunnlaugsson dagskrárstjóri Sjónvarpsins sem bað Sigurð Sigurjónsson að leikstýra því skaupi. Sigurður fær með sér Örn, Ladda og Randver til að skrifa handritið. Það er svo Hrafn sem stingur uppá að Karl Ágúst verði með í handritsgerð. Mikil ánægja var meðal landsmanna á skaupinu og var sami hópur fenginn til að gera áramótaskaupið 1986, en þá með Karl Ágúst sem leikstjóra. Þarna var kominn ákveðinn hópur grínista sem unnu vel saman, en þó vantaði ennþá Pálma.[2]

Nafnið Spaugstofan kom þegar Örn og Pálmi voru í heimsókn hjá Ladda á skrifstofunni hans. Þá voru þeir að ræða að stofna umboðsstofu fyrir grínista á Íslandi. Þá hringir síminn og Örn svarar og segir "Spaugstofan góðan dag" vegna þess að allt hét eitthvað "...stofa". Til dæmis tannlæknastofa, arkitektastofa og svo framvegis.[2]

Spaug til einhvers (1986-1988)[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1986 framleiddu þeir Karl Ágúst, Sigurður, Randver, Örn og Laddi svo fjóra grínþætti fyrir RÚV og fengu þeir heitið Spaugstofan og voru sýndir í febrúar og mars 1987. Fyrsti þátturinn hét Spaug til einhvers og var útúrsnúningur á sjónvarpsmynd sem hafði nýverið verið sýnd og hét Líf til einhvers. Hver þáttur átti svo að fá nýtt nafn en úr því varð aldrei og hétu allir þættirnir Spaug til einhvers. Þetta voru sketsaþættir með svokölluðu heilsársgríni, það er að segja að þeir voru ekki að gera grín að atburðum vikunnar heldur voru þetta brandarar sem hægt var að horfa á hvenær sem er. Þar voru til dæmis kómísk íþróttaatriði og atriði sem snérust útá útúrsnúning á orðum. Þeir tóku líka viðtöl úr fréttatímum sjónvarpsins og breyttu spurningunum þannig að svörin urðu kómísk. Einn fréttamaðurinn bað Spaugstofumenn vinsamlegast um að hætta að taka viðtöl úr samhengi með því að setja inn nýjar spurningar við svör fólks. Hann sagðist ekki lengur fá fólk í viðtöl því það var hrætt um að það sem það sagði yrði tekið úr samhengi í þáttunum.[3]

89 á stöðinni (1988-1989)[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1988 fara þeir félagar svo til Stöð 2 með hugmynd að sjónvarpsþætti. Þátturinn átti að heita Imbakassinn og þar myndu þeir gera grín að sjónvarpsdagskránni ásamt fréttum vikunnar. Dagskrárstjóri Stöðvar 2 var tilbúinn að kaupa þessa þætti en var ósáttur við nafnið Imbakassinn og biður þá um að finna betra nafn. Á þeim fimm mínútum sem Spaugstofumenn fengu til að finna nýtt nafn þá hætti dagskrárstjóri við að kaupa þættina því allt í einu voru ekki til peningar í þessa framleiðslu.[3]

Nokkrum mánuðum seinna fara þeir með sömu hugmynd til Ríkissjónvarpsins og þar gera þeir samning upp á fjóra þætti og fær þessi nýji sjónvarpsþáttur heitið 89 á Stöðinni, sem er útúrsnúningur á kvikmyndinni 79 á stöðinni. Laddi gat hinsvegar ekki verið með því hann var upptekinn í öðrum verkefnum en Pálmi Gestsson kom í hans stað. Þannig byrjuðu hinir eiginlegu Spaugstofuþættir. Eftir miklar vinsældir fyrstu þáttana var ákveðið að halda áfram út vorið og urðu þættirnir þann vetur alls sextán.

Þættirnir voru byggðir upp eins og að ný sjónvarpsstöð væri komin í loftið sem hét Stöðin og var í samkeppni við Ríkissjónvarpið og Stöð 2. Megnið af efni þessarar nýju sjónvarpsstöðvar var fréttatími en einnig voru þar auglýsingar, matreiðsluþáttur, barnaefni og margt fleira. Þessi nýja sjónvarpsstöð þjáðist af miklum tæknilegum örðuleikum, reynsluleysis fréttamanna og fjárskorti.

Þennan fyrsta vetur birtust margar persónur sem urðu klassískar svo sem Kristjáni Ólafssyni með þáttinn Nei! Neytendaþáttur, Boga og Örvari, fréttamönnunum Pétri Teitssyni, Erlendi Sigtryggssyni og alþýðumanninum Ragnari Reykás. Einnig voru þáttaliðir á borð við Matargatið, Úr ljóðabókinni, Gummi Gúmm og Nýjustu græjur. Þennan fyrsta vetur var ekki mikið gert grín að stjórnmálamönnum sem síðar varð algengara.

Síðasti þáttur vetrarins var sýndur 29. apríl og í honum var tilkynnt að sjónvarpsstöðin væri farin á hausinn.

89-92 á stöðinni, Örfá sæti laus og Imbakassinn (1989-1995)[breyta | breyta frumkóða]

Þann 28. október 1989 hófust aftur sýningar á 89 á stöðinni og hétu þeir það allt til áramóta en þá kölluðust þættirnir 90 á stöðinni. Þennan vetur hófu nýir fréttamenn störf, til að mynda Ófeigur og Gunnlaugur Skarann. Nýir þættir voru Gönguhróflur, Litakassinn og Föndurhornið. Aðrar nýjar persónur voru til að mynda lögreglumennirnir Geir og Grani, Krummi bifvélavirki, bændurnir Magnús og Eyjólfur og Skæringur Friðjónsson sem kom fram sem sérfræðingur á ýmsum sviðum eða fulltrúi einhverjar stofnunar, svo sem fulltrúi borgarstjóra eða skattstjóra.

Árið 1990 fóru Spaugstofumennirnir með söngleik í Þjóðleikhúsinu sem nefndist "Örfá sæti laus". Þeir fimmmenningar voru höfundar verksins og leikstjóri var Egill Eðvarðsson. Ásamt Spaugstofumönnum voru leikarar Anna Kristín Arngrímsdóttir, Bessi Bjarnason, Jóhann Sigurðarson, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Lilja Þórisdóttir, Rúrik Haraldsson, Steinn Ármann Magnússon, Tinna Gunnlaugsdóttir og Þórarinn Eyfjörð. Dansarar voru Ásta Henriksdóttir, Ásdís Magnúsdóttir, Helga Bernhard og Guðmunda H. Jóhannesdóttir.[4]

Spaugstofan hélt svo göngu sinni áfram í sjónvarpinu næstu tvo vetur undir nafninu 91 á stöðinni og 92 á stöðinni. Haustið 1992 var Spaugstofan ekki á dagskrá Sjónvarpsins og leit út fyrir að Spaugstofan væri endanlega hætt. Sigurður, Örn, Pálmi og Laddi byrjuðu með nýjan þátt á Stöð 2 sem kallaðist Imbakassinn.[5] Þeir voru á dagskrá Stöðvar 2 þar til vorið 1995.

Enn ein stöðin og tvær kærur (1996-1997)[breyta | breyta frumkóða]

Það var svo 13. janúar 1996 sem Spaugstofan snéri aftur og hétu nú Enn ein stöðin. Í mars það ár var Ríkissjónvarpið kært af einum áhorfanda fyrir atriði úr Spaugstofunni og unglingaþættinum Ó. Í atriði Spaugstofunnar, sem sýndur var 24. febrúar, fer persónan Kristján Ólafsson í risavaxið smokklíki og skríður í gegnum sköp á konu. Í þessu atriði var verið að gera grín að kynfræðslu sem var í ofangreindum unglingaþætti. Í viðtali við DV sagði ákærandi “Það er fráleitt að það sé verið að opinbera þessa yndislegu leyndardóma börnum frá fjögurra ára aldri og upp úr".[6] Kæran var ekki rannsökuð en í framhaldi af því kom út þáttur Spaugstofunnar þar sem þeir gerðu stólpagrín að kærunni. Þátturinn hét Klámhundalíf og er einn af uppáhalds þáttum Karls Ágústs.[7]

Spaugstofan sneri svo aftur veturinn 1997. Þann 29. mars 1997, laugardaginn fyrir páska, kom út þáttur sem átti eftir að draga marga dilka á eftir sér. Þátturinn var með páskaþema og í honum lék Sigurður Sigurjónsson Jesú við ýmsar kómískar aðstæður. Sigurður bað þáverandi dagskrárstjóra innlendrar dagskrár um að horfa á þáttinn og spurði hvort þeir væru nokkuð að fara yfir strikið. Dagskrárstjóri sá enga ástæðu til að gera breytingar á þættinum. Þátturinn fór fyrir brjóstið á mörgum og Ólafur Skúlason, þáverandi biskup, senti útvarpsráði og útvarpsstjóra bréf þar sem hann kvartaði yfir þættinum.[8] Ríkislögreglustóri rannsakaði þáttinn og kallaði Spaugstofumenn í skýrslutöku. Lögmaður Sjónvarpsins ráðlagði þeim að hugleiða það í alvöru hvernig þeir ætluðu að rökstyðja að það sem þeir gerðu væri ekki lögbrot.[7] Dagblaðið Spegillinn var árið 1984 fundinn sekur fyrir guðlast og því ástæða fyrir að hafa ákveðnar áhyggjur. Í ágúst 1997 var svo rannsókn hætt og engir eftirmálar á því. Sigurður Sigurjónsson fékk hins vegar nokkur símtöl frá áhorfendum sem voru mjög reiðir. Það sat lengi í honum þessi símtöl.[7] Vikuna eftir gerðu Spaugstofumenn þátt sem hét Gullna sviðið þar sem þeir gerðu grín að kærunni.

Stöðvarvík og nýjir meðlimir (1997-1999)[breyta | breyta frumkóða]

Haustið 1997 breyttist þátturinn töluvert og flutti sjónvarpsstöðin sig út á land og hétu þættirnir Stöðvarvík. Þessi breyting var ekki vinsæl og urðu þættir Stöðvarvíkur aðeins tíu. Veturinn 1998 til 1999 var nýju blóði hleypt í Spaugstofuhópinn þegar Erla Ruth Harðardóttir og Linda Ásgeirsdóttir gengu til liðs með Spaugstofumönnum. Þær voru þó ekki nema þennan eina vetur í leikarahópnum. Þann 1. maí 1999 kom svo út síðasti þáttur Enn einnar stöðvarinnar og leit allt út fyrir að Spaugstofan væri hætt fyrir fullt og allt.

Skjáskot úr 300. þætti Spaugstofunnar þann 24. mars 2007, þar sem að þeir breyttu texta þjóðsöngsins.

Spaugstofan endurreist aftur og fráhvarf Randvers (2002-2010)[breyta | breyta frumkóða]

Haustið 2002 mætti Spaugstofan aftur og hét nú loks einfaldlega Spaugstofan. Þá hættu þættirnir að fjalla um Stöðina og voru Spaugstofumennirnir að leika sjálfa sig að kynna atriði þáttanna. Í 300. þætti Spaugstofunnar þann 24. mars 2007 breyttu Spaugstofumenn texta þjóðsöngsins í einu atriði þáttarins. Þetta mál fékk mikla athygli þar sem að það var bannað í lögum að breyta texta þjóðsöngsins. Spaugstofumenn voru samt sem áður ekki kærðir fyrir þetta.

Haustið 2007 bárust svo þær fregnir að því að Randver yrði ekki með í Spaugstofunni þann veturinn.[9] Þáverandi dagskrárstjóri Ríkissjónvarpsins, Þórhallur Gunnarsson rak því Randver vegna þess að hann vildi meiri gæði í þættina og krafðist þess að hann myndi ekki vera lengur í hópnum og sá peningur sem mundi sparast færi í að vera með utanaðkomandi gestaleikara. Þessi afstaða hans var það afgerandi að ef ekki yrði við þessari kröfu mundi Spaugstofan ekki vera lengur á dagskrá. Þessu fylgdi mikil reiði meðal hinna Spaugstofumannana en einnig meðal almennings. Undirskriftasöfnun fór af stað með þá kröfu að Randver yrði ráðinn aftur í Spaugstofuna. Þessi undirskriftasöfnun bar ekki árangur.[10] Í fyrsta þættinum án Randvers var Þórhalli borið saman við hryðjuverkamanninn Osama Bin Laden, sem að þótti umdeilt en líka sniðugt að matri sumra.[11]

Spaugstofan fer yfir á Stöð 2 (2010-2014)[breyta | breyta frumkóða]

Þann 17. apríl 2010 var síðasti þáttur Spaugstofunnar á Ríkissjónvarpinu. Fjárlög frá ríkissjóði til Sjónvarpsins hafði þær afleiðingar að skera þurfti verulega niður og var Spaustofan hluti af þeim niðurskurði. Um haustið sama ár hefur Spaugstofan göngu sína á Stöð 2 og er á dagskrá þar til ársins 2014.[12] Veturinn 2013 til 2014 bættist svo Laddi í hópinn. Í nóvember 2014 ákvað Stöð 2 að taka Spaugstofuna af dagskrá, án vilja Spaugstofunnar.

Yfir til þín og allra síðasti þátturinn (2014-2016)[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2014 lýstu Spaugstofumenn yfir þeirri hugmynd að halda áfram starfandi með vikulegan leikhúsgrínþátt um fréttir liðinnar viku, en ekkert varð úr því. Árið 2015 fór Spaugstofan á svið með sýninguna ‘’Yfir til þín’’, þá var Randver með í för í stað Ladda. Sýningin var á dagskrá fram á haustið 2016.

Haustið 2015 voru sýndir heimildarþættirnir "Þetta er bara spaug... stofan" þar sem saga Spaugstofunnar var rakin í tíu þáttum.

Þann 23. janúar 2016 sneru Spaugstofumenn svo enn og aftur til RÚV með allra síðasta þáttinn sem bar heitið Andspyrnuhreyfingin. Í honum voru Randver og Laddi með í för. Þetta var þáttur númer 473, þrátt fyrir að hafa verið markaðsettur sem þáttur 500.

Móðir menn í kví kví og nútíminn (2020-)[breyta | breyta frumkóða]

Vegna útbreiðslu kórónuveirunnar ákvað Spaugstofan að byrja með hlaðvarpsþátt á RÚV á sunnudögum. Þættirnir byrjuðu 29. mars 2020 og hét Móðir menn í kví kví en þar var Randver með í för. Þættirnir urðu fimm talsins og sá síðasti kom út 26. apríl 2020.

Spaugstofumenn hlutu heiðursverðlaun Eddunar árið 2020. Þeir komu einnig aftur saman í áramótaskaupinu árið 2022 og fyrir söfnun Grensásspítala haustið 2023.

Áhorf og verðlaun[breyta | breyta frumkóða]

Þættirnir voru mjög vinsælir allt frá upphafi. Áhorf var 40% þjóðarinnar árið 1998,[13] 68% þjóðarinnar árið 2004[14] og í byrjun ársins 2010 meðan þættirnir voru ennþá á RÚV var áhorf 51% þjóðarinnar.[15] Áhorf minnkaði niður í 14.1% í nóvember 2010 enda voru þættirnir komnir á Stöð 2 og í læstri dagskrá.[16]

Árið 2003 var Spaugstofan tilnefnd til Edduverðlauna sem sjónvarpsþáttur ársins. Þátturinn vann svo tvisvar sinnum sem skemmtiþáttur ársins, árin 2004 og 2011. Árið 2020 var Spaugstofan handhafi heiðursverðlauna Eddunar.[17]

Persónur og atriði í þáttunum[breyta | breyta frumkóða]

Spaugstofan var þekkt fyrir að gera grín að persónum í þjóðlífinu og þá sérstaklega stjórnmálamönnum, en þeir bjuggu einnig til sínar eigin persónur. Svo sem Kristján Ólafsson, Boga og Örvar, Núma, fréttamennina Pétur Teitsson og Ófeig svo ekki sé minnst á alþýðumanninn Ragnar Reykás. Sumar af þessum persónum eiga uppruna sinn fyrir tíma Spaugstofunnar og margar eignuðust líf langt fyrir utan þættina, svo sem í Áramótaskaupum, auglýsingum og leiksýningum.

Útgefið efni[breyta | breyta frumkóða]

4 af 5 VHS spólum sem gefnar hafa verið út

5 VHS spólur hafa verið gefnar út með efni Spaugstofunnar. Fyrst voru gefnar út 3 spólur með efni frá 1989 til 1992. Síðar kom út spóla sem hét Fullir af monti með efni frá 1995-1998 og loks Menn í blokk' með efni frá 1996-1999.

Árið 1986 kom út plata sem heitir Sama og þegið. Þetta er grínplata með þeim Erni Árnasyni, Karl Ágústi og Sigurði Sigurjónssyni.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Spaugstofan“. www.facebook.com. Sótt 27. maí 2020.
  2. 2,0 2,1 2,2 RÚV (2015) Þetta er bara Spaug... stofan: Þáttur 1
  3. 3,0 3,1 RÚV (2015) </nowiki>Þetta er bara Spaug... stofan: Þáttur 2
  4. „Gamansöngleikurinn Örfá sæti laus - DV“. timarit.is. 21.09.1990. Sótt 24. júní 2024.
  5. DV (8. október 1992). „Stöð 2 á laugardögum: Imbakassinn“. timarit.is. Sótt 24. júní 2024.
  6. DV (6. mars 1996). „Í smokklíki og skreið gegnum sköp á konu“. timarit.is. Sótt 24. júní 2024.
  7. 7,0 7,1 7,2 RÚV (2015) Þetta er bara Spaug... stofan: Þáttur 7
  8. Dagur-Tíminn (3. apríl 1997). „Guð hlýtur að hafa húmor“. timarit.is. Sótt 24. júní 2024.
  9. Grein á www.mbl.is, ‚Randver hættir í Spaugstofunni‘.
  10. RÚV (2015) Þetta er bara Spaug... stofan: Þáttur 9
  11. „Spaugstofan líkti Þórhalli við Osama Bin Laden - stebbifr.blog.is“. stebbifr.blog.is. Sótt 30. júní 2024.
  12. „Okkar starfi er ekki lokið - Morgunblaðið“. timarit.is. 1. september 2010. Sótt 24. júní 2024.
  13. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 24. júní 2024.
  14. Frjáls verslun (1. febrúar 2004). „Spaugstofan fagnar með stórsamningi“. timarit.is. Sótt 24. júní 2024.
  15. Morgunblaðið (6. febrúar 2010). „Áhorfsmet slegið hjá RÚV í seinni vikunni á EM“. timarit.is. Sótt 24. júní 2024.
  16. Morgunblaðið (6. nóvember 2010). „Hvað horfir fólk á?“. timarit.is. Sótt 24. júní 2024.
  17. „Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson, Pálmi Gestsson, Randver Þorláksson, Örn Árnason (Spaugstofan)“. Eddan. 19. september 2020. Sótt 24. júní 2024.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]